Í þessu verkefni kynnast nemendur fyrirbærinu hermun (e. resonance) með því að búa til skjálftaborð. Þessi útgáfa er gerð úr afar einföldum búnaði: Pappaspjöldum, teygjum og borðtennisboltum, auk nokkurra spýta, málmteins, og borvélar.
Borðið má nota til að gera kannanir og tilraunir með jarðskjálftaþolnar byggingar, en kýpverski kennarinn Christina Aristodimou sem kynnti þetta verkefni hefur notað það til að leggja hönnunaráskorun fyrir nemendur sína.
Við borðið má svo bæta viðbótum eins og jarðskjálftanema.



Rétt eins og gítarstrengur, sílófón-nóta, og kampavínsglas sem öll spila ákveðinn tón þegar þau eru slegin, hefur hver bygging einnig sinn tón: tíðnina sem byggingin mundi sveiflast á ef hún væri sveigð til og henni sleppt. Ef jörðin undir byggingunni titrar á þessum tóni bregst hún við og sveiflur hennar magnast upp … mögulega svo mikið að byggingin brotnar.
Þessi tíðni er kölluð eigintíðni byggingarinnar og ef við hittum á hana er sagt að örvunin sé á hermitíðni byggingarinnar. Frægt dæmi um slíkt er fall Tachoma Narrows brúarinar. Verkfræðingar beita ýmsum leiðum til að tryggja að eigintíðni bygginga séu ekki nærri algengum tíðnum bylgja sem um þær fer og að orkan í sveiflum þeirra tapist hraðar en hún bætist við. Dæmi um leiðir til að koma í veg fyrir hermun bygginga er að einangra þær frá jörðunni eða gleypa hreyfiorkuna, t.d. með stilltum massadempara (e. tuned mass damper).